Sæl öll.
Framundan eru vorhátíðir á deildum barna ykkar. Þær fara allar fram inni á sal leikskólans í maí og eins og sést á dagatali heimasíðunnar þá verða þétt setnar næstu tvær vikur með vorhátíðum nánast á alla daga.
En hvað fer fram á þessum vorhátíðum?
Jú þarna gefast börnum og starfsfólki tækifæri til að sýna foreldrum og forráðamönnum þá vinnu sem hefur farið fram í tónlist um veturinn, eins konar uppskeruhátíð. Börnin hafa sótt tónlistartíma með reglulegum hætti allan veturinn, bæði inni í sal sem og inni á deildum. Í þessum stundum fer fram mikið nám, bæði tengt tónlistinni sem og framkomu, reglum og venjum.
Það þarf hugrekki og þor til að standa á sviði, syngja, dansa og spila á hljóðfæri en við teljum að sú reynsla sem börnin fá í þessum tónlistartímum og á þessum uppskeruhátíðum hjálpi þeim í framtíðinni, að þau verði öruggari í aðstæðum þar sem á reynir og að þau hafi öll rödd sem beri að hlusta á.
Það hefur verið mikil og sönn ánægja að sjá hvað margir hafa getað komið og tekið þátt í þessum stundum okkar og það er gaman bæði fyrir börnin og starfsfólkið að finna að starfið og vinnan sem unnin er með börnunum sé áhugaverð.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest, ömmur, afar og systkini eru velkomin líka. Þið finnið allar helstu upplýsingar varðandi vorhátíðirnar á heimasíðunni en einnig á Viðburðardagatölum deildanna sem eru í fataherbergjunum.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á þessum viðburðum
Bestu kveðjur til ykkar allra
Vilborg leikskólastjóri