Dagur læsis 8.september

Alþjóðlegur dagur læsis er í dag en frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis.

En hvað er læsi?

Læsi er ekki bara það að kunna að lesa heldur er það svo miklu meira.

Læsi verður til á löngum tíma og lagður er grunnur að því á fyrstu árum ævinnar eða strax við máltöku.

Læsi felur í sér skilning á lesnum texta og er færni til að tjá sig í rituðu máli. Þar sem ritað mál er fjölbreyttara og flóknara en talað mál, er læsi grundvöllur framfara í málþroska barna.

Þekking á forsendum læsis innan leikskólastigsins er stöðugt að eflast en leikskólinn, ásamt foreldrum, á ríkan þátt í að efla þessar forsendur. Þáttur leikskólans er sérstaklega mikilvægur þegar kemur að því að veita þeim börnum, sem á þurfa að halda, greiningu og íhlutun en slík aðstoð getur skipt sköpum fyrir námsárangur seinna meir. Mikilvægt er að leikskólar eigi gotta foreldrasamstar þar sem leikskóli og foreldrar vinna saman að því að efla forsendur læsis, er mjög vænlegt til árangurs.

Læsi í hefðbundnum skilningi byggir á tveimur höfuðþáttum en þeir eru færnin til að umbreyta ritmálinu í merkingabær orð með umskráningu og að skilja orðin sem textinn eða ritmálið inniheldur.

Allur skilningur, hvort heldur sem er skilningur á mæltu máli eða skilningur á ritmáli, hvílir á málskilningnum. Málskilningur málnotandans nær yfir allan þann orðaforða sem viðkomandi skilur og hann notar til að tjá sig í ræðu og riti. Staða málskilningsins, sem byggir á stærð orðasafns málnotandans, og færni í umskráningu eða lesfimi eru þeir tveir þættir sem hafa mestu áhrifin á getu lesara til að skilja texta. Af þessu leiðir að góð lesfimi og góður málskilningur eru lykilþættir læsis.

Leikskólar á Akranesi gáfu út læsisstefnu sem er okkar helsta gagn í vinnu með læsi. Ég hvet ykkur foreldra til að lesa og jafnvel nýta hana til eflingar læsi á heimavelli.

Þessi stefna er aðgengileg á heimasíðu leikskólans https://www.vallarsel.is/static/files/laesisstefna-akranes.pdf