Vallarsel-syngjandi glöð í leik og starfi

Leikskólinn Vallarsel

Leikskólinn er staðsettur við Skarðsbraut 6 og var tekinn í notkun 20. maí 1979. Þá voru tvær
deildir í skólanum með tvískiptan vistunartíma, fyrir og eftir hádegi. Árið 1985 var opnuð
dagheimilisdeild, eins og það hét þá. Þar dvöldu eingöngu börn sem voru allan daginn í
leikskólanum. Vallarsel er elsti starfandi leikskólinn á Akranesi.                                                                                           

Árið 1992 fékk skólinn formlega nafnið Vallarsel. Í lok árs 2002 var ákveðið að stækka
skólann um þrjár deildir. Haustið 2004 var allur skólinn tekinn í notkun eða sex deildir.
Deildirnar heita Skarð, Jaðar, Vellir, Lundur, Stekkur og Hnúkur og vísa nöfn þeirra í
staðhætti í nágrenni Akraness.
                                                                   

Megináherslur Vallarsels
Tónlist
Megináherslur Vallarsels í starfi með börnunum eru tónlist og frjáls leikur. Þessir þættir lita
allt daglegt starf leikskólans. Mikil áhersla er lögð á að börnin fái nægan tíma í frjálsa
leiknum og að gleði sé höfð í fyrirrúmi. 

Markmið okkar í tónlist:
• Að efla alhliða þroska barna í gegnum leik og starf með tónlist.
• Að efla söng og sönggleði sem grundvallaratriði í tónlistaruppeldi.
• Að börn nemi grunnatriði tónlistar með samleik tóna og hreyfingar.
Áhersluþættirnir okkar í tónlist eru:
• Söngur: samsöngur og sjálfsprottinn söngur í leik.
• Hrynþjálfun: þjálfun tilfinninga fyrir púls og hryn.
• Hreyfing: með tónlist og í tónlistarleikjum.
• Hlustun: fjölbreytt tónlist frá ýmsum löndum, klassísk sem og ný tónlist.
• Hugtök í tónlist: stíll, blær, tónhæð, hraði, styrkur, hrynur, púls og tónlengd.
• Hljóðfæravinna: með fjölbreytt hljóðfæri og hljóðgjafa                                                                                                       

Frjáls leikur
Í Vallarseli er lögð mikil áhersla á frjálsa leikinn og börnum er gefinn rúmur tími til þess að
þróa hann. Aðalnámskrá leikskóla (2011) gerir mikið úr mikilvægi leik barna en þar segir:
“Leikur er mikilvæg námsaðferð og opnar víddir þar sem sköpunargleði barna og ungmenna
getur notið sín. Hamingja og gleði liggja í því að finna hæfileikum sínum farveg og fá að
njóta sín sem einstaklingur og hluti af heild ”
Leikurinn er aðaltjáningarform yngstu barnanna og uppspretta náms þeirra. Leikurinn er
börnum eðlislægur og þau nýta öll tækifæri sem gefast til leiks.                                                                                         

Markmið okkar í Vallarseli
• Að efla alhliða þroska barna, andlegan, félagslegan og tilfinningalegan.
• Að skapa börnum góðan tíma til frjálsra og sjálfsprottinna leikja á eigin forsendum.
• Að skapa bestu aðstæður til náms og starfs í gegnum leikinn.

Unnið er með tónlist samkvæmt tónlistarnámskrá leikskólans, þar sem hver aldur fyrir sig fær tónlistarkennslu við hæfi, bæði út frá aldri og hæfni.