Svefn barna

 

Svefn og hvíld ungra barna

 

Svefn er öllum mönnum og dýrum nauðsynlegur. Í svefni hvílist líkaminn og endurnýjar sig. Taugakerfið endurnærist í svefni og skorti menn svefn skerðist andleg geta þeirra. 

Eitt af því sem ungbarn þarf að takast á við er að móta svefn- og vökuhrynjandi eða dægursveiflu. Börnum gengur þetta misvel. Sum börn virðast sjálfkrafa sofa meira á næturnar og vaka á daginn, en öðrum börnum eiga foreldrar erfitt með að kenna mun á nóttu og degi. Ung börn geta þróað með sér svefnvenjur sem mikilvægt er að hjálpa þeim að leysa.

Flest nýfædd börn sofa í nokkuð jöfnum lúrum allan sólarhringinn. Smám saman breytist þetta og um 6 mánaða aldur er nætursvefninn kominn í 10 til 12 klukkutíma. Svefntíminn að nóttu helst í þeirri lengd með litlum breytingum til 2-3 ára. Mun meiri einstaklingsmunur er milli barna á lengd daglúra en lengd nætursvefns. Fjöldi daglúra er oftast þrír á dag til 4-6 mánaða aldurs, eftir það fækkar þeim í tvo. Um 1 árs aldur (frá ca. 9 til 14 mánaða) fer barn síðan að sofa 1 daglúr. Börn eru mjög mis gömul þegar þau hætta að sofa á daginn eða á bilinu 18 mánaða til 5 ára.

Góðar svefnvenjur eru gulls ígildi bæði fyrir foreldra og börn. Flest börn þurfa aðstoð frá foreldrum sínum til að þróa með sér góðar svefnvenjur. Gott er að hafa í huga að nýfætt barn hefur þann hæfileika að sofna sjálft. Ef foreldrum tekst að viðhalda þessum hæfileika barnsins þá eru góðar líkur á að því takist að sofna sjálfu þegar það eldist.

Í Vallarseli er hvíldartími eftir hádegisverð þar sem hlustað er á sögu eða rólega tónlist. Yngstu börnin sofa flest eftir hádegið en fyrir eldri börnin sköpum aðstæður til hvíldar á bæði líkama og sálu og starfsfólk nýtir þessar stundir til að styrkja tilfinningatengsl við börnin. 

Inni á heilsuvera.is eru til ýmsar ráðleggingar varðandi svefn og hvíld barna.